Svæðið umhverfis Hestamýri hefur verið skipulagt með “sveit í borg” í huga. Í deiliskipulagsskilmálum kemur fram:
“Það sem er heillandi og einkennandi fyrir sveit í borg eru andstæðurnar milli byggðar og landslags. Þar má sjá smáar, þéttar þyrpingar af húsum, býli sem hreiðra sig saman, mynda skjól fyrir veðri og vindum og sem um leið eru lítil samfélög íbúa sem hittast og þekkja hvern annan. Það er sveit í borg.
Hugmyndin að baki skipulagstillögunni fyrir Álftanes byggir á nálgun um að þróa byggð í klösum og dreifa þeim um opin svæði með náttúrulegu yfirbragði þannig að menningarlandslag svæðisins fái að njóta sín og flæða á milli húsaþyrpinganna.
Nútímalegt sveitaþorp með áherslu á samspil íbúðabyggðar og umhverfis.”
Frá Hestamýri er stutt í leikskóla, skóla og íþróttaaðstöðu. Örugg göngu/hjólaleið þar sem ekki þarf að fara yfir götu.
Hestamannafélagið Sóti er með aðstöðu á Álftanesi. Hestamennska hefur verið vinsæl þar og margar fallegar reiðleiðir.
Miklir útivistarmöguleikar eru í næsta nágrenni við Hestamýri. Á Álftanesi er falleg strandlengja sem hentar vel til göngu og útiveru. Göngu og hjólastígur liggur út á nesið fyrir þá sem vilja fara í lengri ferðir.